← Til baka á bloggið

Lærðu innanhússhönnun með Sæju

11. febrúar 2022 • Eftir Frami Framason

Hver er Sæja?

Sæbjörg Guðjónsdóttir, eða Sæja, eins og hún er alltaf kölluð, útskrifaðist sem innanhússhönnuður árið 2011 frá KLC School of Design/University of Brighton. Sama ár vann hún John Cullen Lighting Design verðlaunin fyrir vinnu sína. Sæja hefur starfað bæði hér á landi og erlendis eftir að hún lauk náminu, og starfaði meðal annars hjá arkitektastofunni The Manser Practice í London. Sæja stofnaði sína eigin hönnunarstofu árið 2016 og starfar nú þar samhliða því að taka þátt í hönnunarsamkeppnum í samstarfi við aðra. Fjölbreytt reynsla Sæju í faginu gefur henni djúpa innsýn í alla þætti innanhússhönnunar og einstaka færni í að útskýra þá. Sæja hefur haft áhuga á innanhússhönnun og öllu því tengdu frá því að hún var ung en hún segist hafa róast við að skipuleggja og endurraða í skápa og skúffur.

Í dag hannar hún mest heimili að hluta til eða í heild. Hún hefur einnig hannað fyrir fyrirtæki og hótel í samstarfi við aðra en mest hannar hún heimili fólks. Viðskiptavinir hennar eru þá ýmist að leita eftir aðstoð við ákveðin rými eins og baðherbergi eða eldhús, innbú, stíliseríngar, efnisval eða annað. Skemmtilegast finnst henni þegar hún fær að ráða öllu, allt niður í skálar og hnífapör segir Sæja og hlær.

Að hverju þarf að huga í upphafi og hvaða mistök má koma í veg fyrir?

Eitt mikilvægasta skrefið þegar kemur að því að hanna rými er að gera þarfagreiningu. Þá er gott að spurja sjálfan sig að hinum ýmsu spurningum sem gætu haft áhrif á rýmið og hvað það er sem þú þarft dags daglega. Til dæmis hvort þú ert mikið að elda eða baka, ertu bókaormur sem átt fullt af bókum? Og fleira. Með því að skipuleggja rýmið vel og hugsa hvað það er sem þig vantar sleppur fólk við mikinn óþarfa kostnað. Efnisval og skreytingar geta allir gert sjálfir, öll erum við skapandi og höfum okkar eigin stíl. Það er ekkert rétt eða rangt í þeim málum. En þegar kemur að stórum framkvæmdum sem eru kostnaðarsamar og erfitt að hætta við, er alltaf best að leita til faglærðra iðnaðarmanna. Sem dæmi rekur fólk sig oft á mistök tengd hljóðvist. Byggja ef til vill stórt hús, með hátt til lofts en svo bergmálar mikið í húsinu þegar allt er komið inn í það. Þá þarf að gera ráðstafanir varðandi þakdúk eða einhvers konar hljóðdempandi efni í loftið.

Fólk gerir sér yfirleitt ekki grein fyrir hvað framkvæmdir eru tímafrekar og kostnaðarsamar svo það er alltaf gott að gera tímaáætlun og kostnaðaráætlun sem reiknar með hærri kostnaði og lengri tíma en gert var ráð fyrir í upphafi.

Innblástur

Eftir að þarfagreining hefur verið gerð og þú veist nokkurn veginn hvað þú vilt hafa til staðar er gott að huga að því hvernig þinn stíll er. Áttu marga listmuni eða listaverk, mikið af bókum, hvaða litir finnst þér fallegir o.s.frv. Hægt er að leita eftir innblæstri víða en Sæja sækir mikið í náttúruna. Í dag er auðvelt að fara á netið og leita af innblæstri, samfélagsmiðlar, tónlist, sýningar, hönnuðir og fleira gefur okkur allt hugmyndir.

Gott er að hafa grunnmyndina alltaf fyrir framan sig í ferlinu en allir geta nálgast grunnmynd af sinni íbúð eða húsi á vef sveitarfélaganna en þar má sjá burðarveggi, stærð og fleira sem gott er að hafa í huga áður en ráðist er í framkvæmdir.

Góð ráð þegar hefja á verkefni

Á námskeiðinu gefur Sæja mörg góð ráð sem geta eflaust nýst flestum sem eru á leið í framkvæmdir eða breytingar. Allt er þetta tímafrekt eins og nefnt var hér að ofan en á meðal þess sem Sæja nefnir er að fara tímanlega í verslanir til að velja flísar, parket, hurðar, innréttingar og fleira því mikið af þessu er pantað að utan og getur tekið margar vikur. Annað sem kostar tíma og vinnu er að finna góða iðnaðarmenn með fyrirvara og gott er að fá tilboð í verkið áður en hafist er handa. Gott er að halda eftir hluta af ráðstöfunarfé fyrir ófyrirsjáanlegum kostnaði og þá sérstaklega í eldri húsum. Einnig nefnir Sæja að gott sé að hafa verkstjóra sem stýrir verkinu svo þú þurfir ekki að sjá um alla þá vinnu og sér í lagi ef þekking á slíku er ekki fyrir hendi.

„Góður iðnaðarmaður er þinn besti vinur“

segir Sæja og jafnframt að til þess að finna hann er gott að tala við vini og ættingja eða leita eftir meðmælum á netinu.

Efnis- og litaval

Þegar kemur að efnisvali undirstrikar Sæja að slíkar ákvarðanir eru mjög persónubundar. Sumir vilja einungis náttúruleg efni eins og marmara stein á eldhúsið sitt en vilja ekki bletti, þá er gott að fara einhvern milliveg. Aðrir vilja flísar á gólfið en ekki parket. Allt er þetta persónubundið og mikilvægt að hafa í huga þegar kemur að þarfagreiningunni. Hvað hentar mér og mínu heimili? Gott er að fylgja tísku og fá innblástur en að lokum er þetta þitt heimili og það eina sem skiptir máli er að þeim sem búa á heimilinu líði vel með niðurstöðuna. Að mati Sæju getur lýsing, stór motta og gardínur gert kraftaverk burtséð frá nánast öllu öðru.

Litir eru einnig mjög persónubundir en góð regla er að skoða fataskápinn og þá sér fólk oft hvaða liti það leitar í án þess að gera sér grein fyrir því. Sæja er hrifnari af náttúrulegum litum og dempuðum tónum en það er ekkert rétt eða rangt í þeim málum. Góð regla er að fá prufur, mála á striga og skoða litina eina og sér. Ekki mála marga liti hlið við hlið á veggnum því það getur truflað undirtóninn. Fallegt er að mála loft í sama lit og veggi og ekki hræðast dökka liti, þeir geta verið mjög kósý.

Innbú og list

Þegar búið er að ákveða rýmið sjálft er gott að huga að húsgögnum og aukahlutum. Þó svo að markmiðið frá upphafi sé að taka rýmið allt í gegn, er engin þörf á að henda öllu út og kaupa allt nýtt en góð regla er að eyða meiri pening í til dæmis borðplötu og fleira og spara þá jafnvel fyrir sófa eða öðru. Það er bæði skemmtilegra að safna fyrir fallegum hlutum sem eru ef til vill gæðameiri heldur en að vera alltaf að kaupa nýtt. Gott er að huga að ákveðnu jafnvægi milli þæginda og fagurgildis innan rýmisins. Það er í lagi að hafa óþæginlegan stól svo lengi sem þú ert með þæginlegan sófa á móti til dæmis. Að lokum er gott að hafa fáa skrautmuni í notkun en jafnvel geyma hluta þeirra inn í geymslu og skipta út eftir hentisemi.

Að lokum sýnir Sæja frá mörgum að hennar fallegu verkefnum og er sjón sögu ríkari.

Þú getur séð meira um námskeiðið og skráð þig hér.


Fyrirtækið

Frami menntun ehf.

Grandagarði 16

101 Reykjavík