← Til baka á bloggið

Magga Pála - viðtal

11. janúar 2022 • Eftir Frami Framason

Allir þekkja börn, svo mikið er víst

„Hvers konar uppalandi ert þú? eða með öðrum orðum, hvernig ætlaru að snerta framtíðina?“ segir Magga Pála í nýju námskeiði hjá Frama þar sem hún fer yfir uppeldi og samskipti við börn.

Magga Pála er leikskólakennari og stofnandi Hjallastefnunar en hún er einnig brautryðjandi í uppeldisaðferðum hér á landi. Á námskeiðinu fer hún meðal annars yfir uppeldishæfni foreldra eða hvernig foreldrar geta speglað sig í sínu eigin uppeldi.

„Uppeldisarfur er það fyrsta sem þú þarft að skoða og það er bara hvernig varst þú alinn upp? og hvernig var uppeldisumhverfið þitt?”

Magga Pála fer yfir hlutverkaskiptingu innan fjölskyldunnar og árekstra innan átakasvæðisins. Farið er yfir hvernig má kenna jákvæða hegðun með reglum og aga, hvernig fylgjum við því eftir og hvernig stuðlum við að jákvæðum samskiptum meðal barna. Kynbundnir eiginleikar og hvernig draga má fram jákvæðu eiginleika kynjanna. Einnig er farið yfir þarfir barna eins og matar- og svefntíma, klæðnað og hreinlæti.

Skjátími barna er ekki vandamál nema við gerum hann að vandamáli.

Eitt af því sem Magga Pála fjallar um á námskeiðinu er hvernig setja megi mörk í leik og starfi og og hvernig við sem foreldrar og uppalendur þurfum að setja reglur. Sem dæmi nefnir hún skjátíma, sem er líklegast vandamál sem allir foreldrar og uppalendur kannast við. Hún segir að það sé mikilvægt að halda skjánum frá börnum fyrstu mánuðina og jafnvel fyrsta árið. Skjátími er þó ekki einungis af því slæma en hún segir að nýta megi skjátíma og öll þessi nýju tæki til góðs en það sé mikilvægt að setja mörk.

„Uppeldi er eins og tilvistin hér í heiminum, endalaus ný verkefni og alltaf eitthvað nýtt sem kemur og ögrar okkur. Eitt af því sem hefur ögrað foreldrum mjög mikið er skjátími barna. En á móti kemur eru gríðarleg tækifæri fyrir aukinni samveru fjölskyldunnar í þessum heimi því að með hinum stafræna veruleika þá getum við verið í mörgum veruleikum í einu.“ segir hún.

„Við þurfum bara að vera í þessum veruleika með börnunum okkar í staðin fyrir að þau séu einhvers staðar ein í allt öðrum veruleika og við vitum ekkert hvað er að gerast, þá skulum við bara blanda okkur og vera með.“

„Það er mjög skemmtilegt fjölskylduverkefni um helgi að vera saman í einhverjum tölvuleik á sjónvarpsskjánum í miðju hússins. Sýna áhuga á því sem er að gerast og skilja þau, og það getur verið hvetjandi fyrir þau börn sem hafa mikinn áhuga á t.d. tölvuleikjum, en við eigum það til að tala niður þeirra hæfni, í stað þess að vera uppörvandi á þessu sviði en auðvitað þurfum við að taka ábyrgð á þessu sviði eins og öðru. Ég meina þú býður aldrei barninu þínu að búa alfarið í einhverjum síma eða tölvuleik fjarri ykkur frekar en þú býður barninu að borða sælgæti í öll mál sem þau myndu gjarnan kjósa, þá notaru auðvitað skynsamlegar reglur. Skjátími barna er ekki vandamál nema við gerum hann að vandamáli.

Fyrst og síðast segi ég, verið þið með börnunum ykkar og það er líka hægt að hafa gaman að því að spila tölvuleiki við unglinginn sinn eða fá fjölskylduna saman á kósýkvöldi eða horfa saman á mynd og tala um hana. Í mínum huga snýst þetta alltaf um það, sendum þau ekki alein inn í aðra heima.

„Munum það að við getum verið með þeim í þessu á jákvæðan hátt og svo setjum við bara mörk eins og með annað.“

Segir Magga Pála um skjátíma barna og unglinga en hún líkir oft skjátíma við sælgæti. “Sælgæti er í eðli sínu ekki vont frekar en skjátími og tölvunotkun, þetta snýst um það hvernig við nýtum það sem er í boði fyrir okkur og þá þurfum við að minnka óttann og fara inn í heimana og skoða þá og taka þátt. Taka upp kjarkinn okkar því fyrir marga foreldra og fyrir margar ömmur og marga afa eru þetta fjarlægir heimar en við þurfum að sækja kjarkinn okkar og muna að það mun fleira koma sem kallar á að við fylgjumst með og tökum þátt með börnunum okkar í öllu því sem er að gerast í þessum heimi. Við setjum mörkin og við erum saman í þessum verkefnum, hvort sem að það er fjölskyldan eða hópur eða hvað það er, við eigum að blanda okkur í það sem er að gerast í lífi barna og unglinga og það eru þúsund leiðir til þess, en að taka upp neikvæða viðhorfið mun aldrei skila okkur neitt áfram“.

Sætta sig aldrei við eitthvað sem er ekki að virka nógu vel fyrir börn

Í dag eru 19 starfandi leik- og grunnskólar á hennar vegum. Magga Pála hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir störf sín. Þeirra á meðal eru Jafnréttisverðlaun Jafnréttisráðs ásamt viðurkenningum fyrir frumkvöðlastarf.

„Hugmyndin á bakvið Hjallastefnuna er samansafn af hugmyndum, sem hafa þróast fyrst og fremst af því að læra af börnum. Hún hefur orðið til í samvinnu fullorðinna og barna í tengslum við rannsóknir og þau bestu fræði sem eru í boði hverju sinni.“

„Fyrst og fremst, þá er stefnan að sætta sig aldrei við eitthvað sem er ekki að virka nógu vel fyrir börn.“

„Allt skólastarf snýst í kjarna sínum um það sama. Hjallastefnan hefur verið óvenjuleg að því leytinu að hún hefur komið inn með nýjar lausnir á því sem hefur verið hefðbundið og sumt af því hefur náðst að breiðast út og það er dásamlegt.“

En að hvaða leyti er Hjallastefnan ólík stefnum hefðbundinna leikskóla? Hjallastefnan er meðal annars með kynjaskipta hópa þar sem er einblínt er á jákvæða eiginleika hvers og eins barns. Leikföngin eru opinn efniviður og umhverfið er rólegt og laust við sjónrænt áreiti. Einnig klæðast börnin skólabúningum en hugmyndin á bakvið skólabúningana er sú að börn og fullorðnir séu alltaf í þægilegum vinnufötum, eru ódýr og hentug en um leið merki um að allir séu í sama liði.

Það líffæri sem við eigum að nota þegar við hugsum um barn, er hjartað

Hjallastefnan þekkist þó ekki einungis hér á landi en Magga Pála hefur verið að ryðja sér til rúms með sínar aðferðir og stefnur í Skotlandi.

„Fyrir 3 árum ákváðum við að skoða hvort það gæti verið að eitthvað af þessum hugmyndum, sem við höfum þróað hér á Íslandi og hafa verið mjög vinsælar hjá okkar dásamlegu foreldrum, gætu átt eitthvað erindi víðar og hvort að þær gætu hjálpað einhverjum skóla eða einhverju barni annarsstaðar“.

Hugmyndin var sú að þróa sömu stefnu og er innan Hjallastefnunar á ensku svo hægt væri að heimfæra verkefnið erlendis og varð Skotland fyrir valinu.

„Þess vegna ákváðum við að gera einn leikskóla á skiljanlegra tungumáli en íslensku og við völdum Skotland sem er þægilegt enskumælandi land og er nálægt okkur.“

„Þessi tilraun er ennþá í gangi en mig langaði að skoða hvort við ættum erindi annað áður en ég hætti afskiptum af börnum, nei ég hætti aldrei afskiptum af börnum.“ segir Magga Pála og hlær. Hún segir það vera langþráðan draum og oft verið rætt innan Hjallastefnunar, ekki síst í ljósi þess að hundruðir gesta, koma hingað til lands erlendis frá, að skoða starfsemi Hjallastefnunar ásamt því að hafa verið í erlendum fjölmiðlum. „Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir hversu mikið hefur verið fjallað um Hjallastefnuna.“ segir Magga Pála.

Hvernig hefur verkefnið í Skotlandi gengið? „Þetta hefur gengið mjög vel þar en nýjar aðferðir þurfa alltaf að sanna sig og það er fullkomlega eðlilegt. Við eigum aldrei að hlaupa á eftir neinu nema hjartað okkar segi okkur að þetta sé að virka fyrir barnið mitt. Það skiptir öllu máli. Það líffæri sem við eigum að nota þegar við hugsum um barn er hjartað.“

Afhverju og fyrir hverja er námskeiðið?

“Einlæg löngun til þess að auka enn meira á þekkingu á börnum og uppeldi barna og umræðu um börn. Einnig finnst mér svo frábært að það sé komið tækifæri til að fólk geti tekið námskeið án þess að fara í skuldbindandi nám til lengri tíma.“ Segir Magga Pála um ástæðurnar fyrir því að hún ákvað að gera námskeiðið.

En fyrir hverja er námskeiðið?

„Þetta er fyrir alla, við þurfum öll að kunna uppeldi, meira að segja gangandi úti á götu ertu að ala upp einhvern eða eitthvert augnablik. Þá er eins gott að við höfum einhverja þekkingu á því rétt eins og við höfum þekkingu á því að ganga yfir gangbraut.“

Þú getur skráð þig á námskeiðið hjá Margréti Pálu hér. Í stiklu fyrir námskeiðið lýsir Margrét Pála því sem þú munt læra á námskeiðinu eins og henni er einni lagið.

Fyrirtækið

Frami menntun ehf.

Grandagarði 16

101 Reykjavík