← Til baka á bloggið

Vilt þú kenna hjá Frama?

3. apríl 2019 • Eftir Frami Framason

Vilt þú kenna hjá Frama?

Við þökkum frábærar móttökur á síðustu mánuðum. Það er greinilegt að Íslendingar eru tilbúnir að læra á nýstárlegan hátt með einföldum hætti. Við höfum nú gefið út fimm námskeið sem mikil aðsókn er í og erum staðráðin í að bæta við fleiri hágæða námskeiðum á næstu misserum. Núverandi og verðandi nemendur hafa verið duglegir að benda okkur á hvaða námskeiðum mætti bæta við. Við leitum því að metnaðarfullum kennurum sem langar að slást í för með Frama og deila þekkingu sinni með nemendum.

Kennslan felst í því að skipuleggja námsefni og taka upp kennslumyndbönd sem birtast á námsvef Frama. Námskeiðin eiga það öll sameiginlegt að veita nemendum hagnýta þekkingu sem opnar fyrir þeim ný tækifæri á vinnumarkaði eða í persónulegum verkefnum. Að neðan má sjá lista yfir þau námskeið sem við hyggjumst framleiða á næstu mánuðum. Einnig erum við opin fyrir uppástungum að öðrum námskeiðum sem þú hefur áhuga á að kenna.

Skrif og textagerð

Grundvallaratriði í góðum textaskrifum. Hvernig skal skrifa einfaldan, stílhreinan og skýran texta. Algeng mistök í textaskrifum og hvernig má forðast þau. Góðar þumalputtareglur. Skrif fyrir ólíka miðla.

Gerð kynninga

Aðferðir við að setja upp kynningu á skýran hátt. Uppbygging kynninga, helstu upplýsingar sem þurfa að koma fram, notkun PowerPoint til að gera glærur, myndir og gröf.

Sala og samskipti

Grundvallaratriði í sölumennsku og samskiptum. Hvernig á að setja sig í spor viðskiptavinarins og loka sölum. Sálfræði og hvernig á að tala við fólk. Samskipti í gegnum síma, tölvupóst og vefspjall.

Adobe Illustrator

Kennsla á Adobe Illustrator forritið. Í námskeiðinu verður farið yfir helstu aðgerðir og skipanir í Illustrator forritinu. Meðal annars verður unnið með teikningar, hluti (objects), texta og lög (layera). Nemendur leysa verkefni og hanna sína eigin grafík sem verður síðan undirbúin fyrir prent eða birtingu á rafrænu formi.

Teikning

Grunnatriðin í teikningu. Teikning mismunandi forma, skygging, fjarvídd og greining hluta fyrir teikningu. Nemendur leysa verkefni sem kennari fer yfir og sýnir lausn á í kennslumyndbandi.

Við veitum þér

 • Leiðbeiningar um hvernig best er að taka upp
 • Ráðleggingar og aðstoð við gerð námsefnis
 • Upptökubúnað

Hæfniskröfur

 • Gott vald á íslensku
 • Metnaður fyrir framleiðslu á gæða kennsluefni
 • Góður skilningur á námsefninu sem kennt er
 • Ef að þú eða einhver sem þú þekkir hefur áhuga á því að kenna fyrir Frama hvetjum við þig til þess senda okkur línu á frami@frami.is

  Fyrirtækið

  Frami menntun ehf.

  Grandagarði 16

  101 Reykjavík