← Til baka á bloggið

​5 leiðir til að fá sem mest út úr námskeiðum Frama

9. apríl 2019 • Eftir Frami Framason

Námskeiðum á netinu fylgir mikið frelsi en líka áskoranir. Þú þarft að læra að skipuleggja tíma þinn, halda frestunaráráttunni í skefjum, og að tileinka þér nýtt námsefni á þínum hraða. Þessar fimm leiðir hafa hjálpað nemendum Frama í náminu:

1) Brjóttu námið niður í búta

Við erum vön því úr skólakerfinu að læra í stórum skömmtum. Mörgum hættir því til að taka námskeiðin hjá Frama í of fáum bútum. Þá er hægt að fara yfir nokkra fyrirlestra í fyrstu rispunni, en á móti kemur að næsta skipti vex manni í augum og hætt er við því að það frestist út í hið óendanlega.

Betri aðferð er að brjóta námskeiðin niður í litlar einingar. Dæmi um útfærslu á því er að fara yfir að hámarki einn fyrirlestur á dag. Hvert skipti tekur þá stuttan tíma og bútarnir verða viðráðanlegri. Frestunaráráttunni er þannig haldið í skefjum allan tímann.

2) Lærðu á þínum hraða

Annar vani úr skólakerfinu er að fylgja námsskránni af samviskusemi. Hjá Frama getur þú hins vegar einblínt einungis á það sem þú þarft að læra. Ef þú kannt nú þegar efni sem farið er yfir í fyrirlestri skaltu ekki hika við að spila hann á tvöföldum hraða eða sleppa honum jafnvel alveg.

Eins er gott að staldra við, spóla til baka, eða jafnvel horfa á fyrirlestur aftur þegar efnið er erfiðara. Aðalatriðið er að þú takir virkan þátt í að tileinka þér efnið en farir ekki yfir allt á sama hraða óháð því hversu erfitt það er.

3) Notaðu það sem þú lærir

Besta leiðin til að tileinka sér nýtt efni er að nota það. Það má gera með því að punkta hjá sér hluti, leysa verkefni eða prófa þekkinguna. Til að fá sem mest út úr námskeiðum Frama þarftu því að nota það sem þú lærir í fyrirlestrunum.

Ef námskeiðið sem þú ert að taka inniheldur verkefni skaltu passa að leysa þau. Ef efnið er hins vegar aðallega í formi fyrirlestra þarftu að beita því sem þú lærir á annan hátt, til dæmis með því að punkta hlutina hjá þér og endurskrifa síðan með þínum eigin orðum.

4) Kafaðu dýpra

Kostur við að læra á netinu er tækifærið til að kafa dýpra í áhugaverðustu hluta námsefnisins. Dæmi um slíkt getur verið að leita á Google að nýju hugtaki sem þér finnst áhugavert, eða horfa á YouTube myndband sem útskýrir nýja aðferð úr fyrirlestri á annan eða ítarlegri hátt.

Líttu á námskeiðin hjá Frama sem inngang að nýjum heimi af þekkingu: að baki öllum námskeiðunum er mun dýpri og ítarlegri þekking og kunnátta. Oft eru margar aðrar góðar „auðlindir“ á netinu sem þú getur fundið til að kafa dýpra.

5) Komdu náminu upp í vana

Til að vinna gegn frestunaráráttunni er best að koma náminu upp í vana. Dæmi er að læra alltaf á sama tíma eða á sama stað. Sumir nemendur mæta til dæmis aðeins fyrr í vinnuna og taka einn fyrirlestur þá, eða taka einn fyrirlestur alltaf strax eftir kvöldmat.

Ef þú vilt segja frá þinni eigin reynslu eða námsaðferðum sem gætu gagnast fleirum hvetjum við þig til að láta í þér heyra. Þú getur sent okkur skilaboð hér á síðunni og nemendur Frama geta skilið eftir athugasemdir hér fyrir neðan.

Fyrirtækið

Frami menntun ehf.

Grandagarði 16

101 Reykjavík